
Peningar, peningar peningar. TikTok er að opna fyrir söluleiðir, bíllinn þinn safnar gögnum sem eru seld áfram og þú gætir fljótlega þurft að ákveða hvort þú viljir borga fyrir aðgang að uppáhaldssamfélagsmiðlinum þínum. Í þessum mánuði eru dálítið myrkar markaðsfréttir í samantektinni en við bætum upp fyrir það með bjartri, litríkri hönnun og bragðefnum. Njóttu!
News
1.
TikTok er að bæta við sölugátt. Það gerir fyrirtækjum og efnissköpurum kleift að selja vörur beint í myndböndunum sínum. Þótt þetta sé ekki orðinn ráðandi valmöguleiki gætu notendur farið að sjá nýjan “Shop” hnapp við leit að ákveðnu efni, þar sem hægt er að kaupa tengdar vörur. Í sumum myndböndum sést líka “Shop” hnappurinn nálægt nafni prófílsins og verður þannig hægt að gera skyndikaup. Áhrif þessarar nýjungar á notendur TikTok eiga eftir að koma í ljós, sem og áhrif hennar á aðra markaði..
Þessu tengt ætlar TikTok að kynna samstarfsleið þar sem efnisskaparar geta unnið sér inn prósentur af vörum sem seljast í gegnum myndböndin þeirra og beinar útsendingar á TikTok. Þessi hagræðing gæti ýtt undir að efnisskaparar mæli með ákveðnum vörum í myndböndum sínum, nokkuð sem þeir hafa svo sem verið að gera undanfarin ár.
2.
Hlustun eftir pöntun eykst sífellt og í fyrsta sinn hefur slík hlustun farið fram úr hefðbundnu útvarpi í Bandaríkjunum, samkvæmt könnun Edison Research. Við búumst við svipaðri þróun í öðrum löndum líka. Heimsfaraldurinn gjörbreytti því hvernig hlustendur nálgast efni núna. Sprenging í hlaðvörpum hefur þar mest áhrif auk vinsælda þess að geta stjórnað sjálf á hvað þú hlustar og hvenær, öfugt við valið efni sem er sett saman og sent út á ákveðnum tímum af ljósvakamiðlum.
3.
Skyldulesning! Mozilla Foundation, stofnun sem er ekki rekin í hagnaðarskyni, kannar reglulega brot á persónuverndarlögum hjá fyrirtækjum, í smáforritum, tæknilegum hlutum og verkfærum. Nýjasta afhjúpun þeirra á persónuverndarreglum nokkurra stærstu bílaframleiðendanna er algjört áfall. Samkvæmt því eru bíleigendur, með því að nota raddstýringu á mælaborðið, í rauninni að gefa leyfi fyrir því að selja megi gögn um þá, eða deila þeim með þriðja aðila, þar á meðal hljóðupptökur af því sem gerist inni í bílnum. Og þetta er bara toppurinn á ísjakanum. Í sumum tilfellum er hægt að deila upplýsingum um ástarlíf þitt, einfaldlega með því að fylgjast með því hvernig bíllinn er notaður.
4.
Flest okkar njóta þess að nota samfélagsmiðla ókeypis en það gæti breyst fljótlega. Óstaðfestar fregnir herma að Meta sé að skoða að taka upp áskriftargjöld á sínum miðlum innan ESB, handa þeim sem vilja losna við auglýsingar. Með öðrum orðum, gjald fyrir þau sem vilja ekki að gögnum um notkun þeirra sé safnað, deilt eða þau geymd. Þetta gæti verið mótvægisaðgerð vegna fordæmalauss dóms um ólögmæti þess að gefa notendum samfélagsmiðla ekki frjálst val um að fylgst sé með notkun þeirra og gögn um hana vistuð, sem Dómstóll Evrópusambandsins kvað upp. Þannig er ljóst að endalok eftirlits-kapítalismans munu kosta hvert og eitt okkar eitthvað, í það minnsta þau okkar sem spá í þessa hluti.
5.
Þú hefur kannski lent í þessu: þú skrifar athugasemd undir póst hjá uppáhaldsfyrirtækinu þínu varðandi seinkun á afhendingu og þau svara eins og þau séu svali vinur þinn úr grunnskóla, með beittu háði eins og Sheldon Cooper. Þessi nálgun gæti hafa verið ofnotuð, eða einfaldlega verið fullkomlega óviðeigandi. Í þessari New York Times grein er farið í saumana á styrk- og veikleika þess að nota kaldhæðni og grín í samskiptum á samfélagsmiðlum.
Augnakonfekt: Para Para
Ein af mínum uppáhaldskvikmyndum er frönsk klassík frá 7. áratugnum, Les parapluies de Cherbourg, sem er bæði lífleg og duttlungafull. Ekki einungis vegna þess að skotin í henni eru fallega litrík, sem og búningarnir og leikmyndin, heldur vegna þess að í henni er, líkt og titillinn gefur til kynna, fullt af því sem er frekar tilgangslaust á Íslandi – regnhlífum. Þú hefur ef til vill ekki sömu ástríðu og ég fyrir þeim en regnhlífar eru heillandi fyrirbæri, bæði hvað varðari hönnun og smíði. Þær eru einnig dásamlegur strigi fyrir ímyndunaraflið, þótt sjónrænir möguleikar þeirra falli oft í skuggann af notagildinu. Breski hönnuðurinn George Wu hefur hins vegar hleypt nýju lífi í regnhlífar með nýrri línu, Para Para. Og slagorð hennar “Bringing Joy to Bad Weather” passar fullkomlega við allar fyndnu og glaðlegu útfærslurnar sem þú getur glætt lífi með því að snúa regnhlífunum, eða með því að nota myndavélina á símanum þínum – þökk sé smáforriti sem fylgir hönnuninni. Þetta er tær gleði!
Tala mánaðarins: 41 %
Samkvæmt nýrri könnun frá Bentley – Gallup finnst 41% Bandaríkjamanna að fyrirtæki ættu að taka opinberlega afstöðu í málefnum líðandi stundar. Fyrir ári síðan var talan 48%. Við getum öll verið sammála um að það að hampa ákveðnum gildum með því að senda skilaboð um slíkt í auglýsingum fyrir neysluvöru hefur ekki alltaf virkað vel, sérstaklega þegar gildin eru ekkert nátengd þeim iðnaði sem neysluvaran tilheyrir. Neytendur sjá í gegnum slíkt!
Trend mánaðarins: Swicy
Swicy gæti verið frábært nafn fyrir nánast hvað sem er, rappara, drag drottningu eða svissneskan ost. En í TikTok samfélaginu er þetta nýjasta trendið í matargerð þar sem tveimur brögðum er blandað saman, sætu og sterku (sweet and spicy). Þótt þetta sé ekki algjörlega nýtt hefur þetta aukið vinsældir þess að para saman þessi tvö ólíku brögð meðal yngstu internet-kynslóðarinnar. Svo, ef þú ert að spá í að fríska upp á matseðilinn þinn til að höfða til yngri viðskiptavina, þá gæti þetta verið leiðin til að ganga í augun á þeim.
Út fyrir rammann: Dark Sites
Manstu þegar “dark mode” var einungis valmöguleiki í skjástillingunni á tölvunum og í smáforritunum þínum? Núna eru heilu vefsíðurnar smíðaðar með svona myrkri hönnun. Og nú þegar haustið verður dimmara og Hrekkjavakan læðist að okkur er tilvalið að fá innblástur frá hönnuninni á þessum myrku vefsíðum.
Þá er bara að slökkva ljósin og kveikja á kertum. Njótið Hrekkjavökunnar og sjáumst í næsta mánuði!
Peace, puppets and techno,
Juraj