Fókus #13

Kæru lesendur, hér fáið þið fyrsta eintak Fókuss á þessu ári, sem er fréttabréf með áhugaverðum fréttum, skrítnum staðreyndum og hugmyndum um markaðssetningu. Dýfum okkur í þetta!

Heimurinn

1.

Þetta fór ekki framhjá mörgum en gott að fá áminningu um að þau sem nota Apple tæki og kaupa auglýsingar hjá Meta í gegnum smáforritin sín (á iPhone eða iPad), þurfa að gæta sín vegna þess að Apple rukkar þau um 30% gjald fyrir slíkt. Það er samt einfalt að sleppa við gjaldið – kaupið auglýsingarnar með því að nota vafrann í tölvunni. Hér eru leiðbeiningarnar en þið getið líka haft samband við okkur til að vera viss um að þið séuð að gera þetta rétt.

2.

TikTok hefur birt lista yfir þau myndbönd sem fengu mest áhorf á miðlinum á síðasta ári. Það áhugaverðasta er að þau okkar sem horfa hvað mest á TikTok gætu samt hafa misst af þessum myndböndum. Hvers vegna? Það er einfaldlega svo margt í gangi í einu. Þessi hugmynd um “viral” myndband, eins og við þekkjum hana, virðist vera gjörbreytt til frambúðar. Lestu nánar um þessa þróun í stuttum en áhugaverðum pistli á Verge.

3.

WhatsApp hefur skýrt frá einfaldri en áhrifaríkri leið til að setja upp texta á mismunandi hátt. Þar sem æ fleiri samskipti eiga sér stað í beinum skilaboðum, bæði milli einstaklinga og milli viðskiptavina og fyrirtækja, getur verið hjálplegt að setja textann upp á mismunandi vegu til að meiningin komist betur til skila og hægt sé að leggja áherslu á einstök atriði. Í þessu stutta myndbandi eru sýndar helstu leiðir til að setja texta öðruvísi upp með einföldum skipunum.

4. 

Meta hefur tilkynnt að það muni merkja sérstaklega myndir og myndbönd sem eru búin til með aðstoð gervigreindar. Markmiðið er að fólk fái að vita hvenær það er að skoða myndefni sem er búið til en ekki raunverulegt. Til að byrja með mun miðillinn einungis merkja myndefni sem fólk býr til með Meta AI gervigreindinni. Síðar meir vill miðillinn geta varað við efni sem verður búið til með forritum frá Google, OpenAI, Microsoft, Adobe, Midjourney og Shutterstock og fleirum.

5.

Google vinnur að því að bæta leitarvélar-algríminn sinn til að ráða betur við holskeflu af lággæða-efni sem búið er til af gervigreind. Þetta er mjög mikilvægt skref fyrir mest notuðu leitarvél heims, til að hún geti haldið áfram að gefa gagnlegar leitarniðurstöður.

Augnakonfekt: Afterlife

Við getum öll verið sammála um að rafrænt rusl er vaxandi vandamál. Þúsundir rafrænna smátækja eru þróuð og fjöldaframleidd árlega og í staðinn er gömlu tækjunum hent og þau lenda oftar en ekki utan endurvinnslu- og hringrásarkerfisins. Í víðtækri leit að lausnum á þessu vandamáli hefur rannsóknarteymi frá Samsung í Bandaríkjunum komið fram með hugmynd sem er bæði smekkleg og áhrifarík, um hvernig hægt er að lengja líf snjallsíma sem annars yrði hent í ruslið. Hugmyndin kallast Afterlife, smekklegt og snyrtilegt hylki sem breytir gömlum síma í klukku, rafrænan myndaskjá eða listaverkavarpa, einungis með nokkrum stillingum. Þetta er engin bylting en hvert hænuskref í átt að hringrásarhagkerfi er þarft og mikilvægt.

Tala mánaðarins: 2,1 milljarður

Þessi risatala er upphæð (í evrum) kröfunnar sem nokkur birtingarhús í Evrópu hafa sett fram í lögsókn gegn Google. Miðlar frá Austurríki, Belgíu, Búlgaríu, Tékklandi, Danmörku, Finnlandi, Ungverjalandi, Lúxemborg, Hollandi, Noregi, Póllandi, Spáni og Svíþjóð halda því fram að þeir hafi orðið fyrir miklu tapi vegna starfshátta fyrirtækisins í stafrænum auglýsingum. Þeir halda því fram að Google hafi aflagað samkeppnismarkaðinn með yfirburðum og stjórn sinni á netauglýsingum.

Trend mánaðarins: Trader Joe’s pokinn

Allt getur orðið trend. En hvernig búum við til trend? Það vita engin, annars værum við öll rík. Það er oftast leyndardómur, blanda af fullkominni tímasetningu, stundum meistaraleg markaðssetningar-strategía, oft heppileg mistök og næstum alltaf afleiðing samfélagslegs þrýstings. Tökum sem dæmi nýjastu söluhæstu vöru matvörukeðjunnar Trader Joe’s. Einfaldi endurnýtanlegi pokinn þeirra, sem kostar 2,99 dali stykkið, rennur út eins og heitar lummur. Hvers vegna? Það vita engin, ekki einu sinni þau sem eru að kaupa þá. Hér er meira um þetta mál í grein New York Times.

Út fyrir rammann: Longevity

Ég verð að viðurkenna að ég hló fyrst þegar ég las fréttir um að Marina Abramović, ein frægasta listakona heims, hefði sett á markað sína eigin húðvörulínu. Og svo fór ég að hugsa. Ég gerði mér grein fyrir hversu auðvelt er að viðhalda þröngsýnni hugmynd um að listamaður eigi ekki að færa sig yfir á svið viðskipta eða fjármála, og sverta þannig heilindi sín, hreinleika, heiðarleika, listræna tjáningu eða jafnvel líf sitt. Nú get ég ekki vitað þína skoðun á þessu en þótt ekki væri nema fyrir tæra forvitni, kynntu þér Longevity. Hannað af listakonu sem hefur verið að brjóta reglur síðan 1973 og ætti, að mínu mati, að vera betri í að fá betri vefsíðu fyrir vörurnar sínar.

Þá er yfirreið helstu frétta lokið í þessum mánuði. Vertu vakandi fyrir næstu sendingu eftir nokkrar vikur. Takk fyrir að fylgjast með mér!

Friður, brúður og teknó,

Juraj

Deildu færslunni:

Aðrar greinar

Fókus #11

Eins ferskt og nóvembervindurinn, hér eru helstu fréttir og innblásinn fróðleikur sem ég hef rekist á síðustu vikur. Allt frá nýjustu viðbótunum á samfélagsmiðlum til þess hvers vegna besta vefsíðan fjallar um egg, þetta og meira til er í fréttabréfi mánaðarins.

Lesa nánar

Fókus #5

Allt frá bjórherferðarvandræðum til stórskemmtilegrar markaðssetningar á asískum ísbragðtegundum, hér eru nýjustu auglýsingafréttirnar.

Lesa nánar