Fókus #12

Endum árið með stórum vöndli af markaðssetningarfréttum. Frá lendingu Meta Threads á Íslandi, til IKEA að gera grín að Balenciaga og svo yfir í orð ársins. Njótið þess að lesa þetta og ýmislegt fleira hér.

Heimurinn

1.

Stærsta fréttin í þessum mánuði er jafnframt sú heitasta, því þetta gerðist fyrir örfáum dögum, þegar ég var að skrifa þetta fréttabréf. Meta opnaði fyrir Thread smáforritið, sem líkist Twitter, á Íslandi sem og víðast í Evrópu. Þar sem forritið er tengt við Instagram, fengu flestir notendur þess boð um að prófa Threads og geta því loks skoðað upp á hvað þessi samfélagsmiðill býður.

Fyrr á þessu ári upplýsti X (áður Twitter) um að mánaðarlega notuðu 123,4 þúsund manns á Íslandi forritið. Það verður áhugavert að sjá hvort sú tala breytist eftir tilkomu Threads og hvort þessi nýi miðill eigi eftir að slá í gegn eða valda vonbrigðum.

Ó og ef þú ert þegar að nota Threads, fylgdu þá Hnappinum þar.

2.

Ef þú horfir á YouTube í gegnum sjónvarp hefurðu kannski tekið eftir nýjum niðurteljara þegar auglýsingarnar koma á. Þetta er ekki einungis grafísk breyting heldur hefur YouTube einnig breytt því hversu ört auglýsingar birtast í sjónvarpsspilun. Héðan í frá muntu sjá auglýsingar þar sjaldnar en þær verða lengri. Auk þess munu auglýsingar einnig birtast þegar horft er á Shorts gegnum sjónvarpið. Þegar allt kemur til alls gefur þetta auglýsendum fleiri kosti þegar kemur að því að ákveða form og lengd á þeim skapandi efnivið sem þeir búa til. Sérstaklega þegar kemur að 30 sekúndna auglýsingum sem héðan í frá verður ekki hægt að spóla yfir lengur.

3.

Þetta er skemmtilegt. Eins og frægt er orðið stal tískuhúsið Balenciaga stílnum af IKEA þegar það kynnti stóra, bláa hliðartösku sem leit alveg eins út og FRAKTA innkaupapokinn frá IKEA, og rukkaði svo meira en 2000 bandaríkjadollara fyrir stykkið. Núna hefur IKEA loksins hefnt sín með því að gera grín að nýjustu karlmannalínu Balenciaga en þar má finna karlmannspils sem lítur alveg eins út og drapplitt baðhandklæði. IKEA dreif í að rigga upp myndatöku í einni af verslunum fyrirtækisins til að kynna hið einstaka “handklæðapils” VINARN, á einungis 10 dollara. Uppátækið skapaði mikla kátínu á samfélagsmiðlum.

4. 

Við lifum á tímum þar sem máttur hefðbundins sjónvarps er sífellt að verða veikari, bæði til að sameina kynslóðir og í að hafa sérstöðu. Það lítur út fyrir að sjónvarpið sé fallandi stjarna þar sem auglýsendur hafa nú breiðara og kostnaðarminna úrval af miðlum til að nota. Svo, borgar sig enn að auglýsa í sjónvarpi? Erfið spurning en Grace Kite svarar henni nokkuð vel í MarketingWeek og útskýrir þetta flókna og síbreytilega mál fyrir okkur hinum.

5.

Vakningin eins og hún birtist í auglýsingum er í endurmati. Loksins! Þess hefur lengi verið beðið að þörf umræða um tilgang í auglýsingum rati inn í fundarherbergi stjórna og fjárfesta, sem loks hafa skilið að ekki henti öll vörumerki vel til að koma boðskap þeirra til skila, dulbúnum í hnattrænu málefni. Þessi dásamlega vel skrifaða grein í Harvard Business Review er best í að skýra þetta viðfangsefni. Fylgdu henni svo eftir með greinum í MarketingWeek og The Drum, sem geta hjálpað þér að skilja snúninginn á tilgangs-markaðssetningu, með skýru dæmi tengdu hinu gríðarstóra fyrirtæki, Unilever.

Augnakonfekt: Lalo

Hafandi mikinn áhuga á leikbrúðugerð og ímyndunarafl til sköpunar, þá fékk ég aldrei æði fyrir ákveðnum leikföngum eða barnahúsgögnum. Þar til nú. Í jólagjafainnkaupaleiðangrinum þetta árið rakst ég á fyrirtækið Lalo. Lalo stendur fyrir “Love All Little Ones” og selur allskonar dót fyrir krakka, en sumt stendur upp úr og það sem fangaði athygli mína eru leik-kassar fyrir eins og tveggja ára. Hvor kassi er hannaður til að örva þroska barns á fyrstu þroskastigunum, bæði huglægan og taugalíffræðilegan. Það sem ég fíla mest við þá er að þarna snýst ekki allt um krúttlegheit heldur er megináherslan á hagnýtni þótt kassarnir séu bæði fallegir og sígildir í útliti. Það er meira að segja hægt að kaupa áskrift að kössunum og fá þá senda einn af öðrum eftir því sem barnið þitt nær hverjum aldri . Svo sniðugt. Þarna ofhitnaði kreditkortið mitt. Ding-ding-ding!

Tala mánaðarins: 36 %

Vestur í Bandaríkjunum stendur Google í samkeppnisdómsmáli. Google er sakað um að hafa ólöglega yfirburði á leitarvélaauglýsingum, og draga þannig úr samkeppni. Við réttarhöldin skýrði lykilvitni óvart frá trúnaðarupplýsingum þess efnis að Google greiði Apple 36% af innkomu sinni af leitarniðurstöðukynningum sem koma upp í Safari vafranumí Mac tölvum. Það þýðir um 18 milljarða Bandaríkjadala, fyrir að vera sjálfgefinn vafri. Google heldur því fram að yfirburðir leitarvélar þess stafi af yfirburðagæðum frekar en að það iðki starfshætti andstætt samkeppnisreglum. En samt, ef Google er virkilega langbesti vafrinn, hvers vegna greiðir fyrirtækið marga milljarða fyrir að halda stöðu sinni sem sjálfgefinn vafri? Þú getur fræðst allt um málið hér.

Trend mánaðarins: Word Of The Year

Hvernig lýsum við líðandi ári í einu orði? Bretar hafa tekið af skarið og hafa þegar afhjúpað hvaða orð við notuðum meira á þessu ári en nokkru sinni áður, eða með öðrum orðum – hvaða orð var trendí síðustu tólf mánuðina og notað til að lýsa því sem var að gerast í kringum okkur. 

Samkvæmt starfsfólki Oxford orðabókarinnar var orð ársins “rizz”. Það lýsir þeirri þörf margra til að sýna sína bestu hlið og láta persónutöfrana njóta sín eða, eins og Z kynslóðin umbreytir “charisma”, sýna “rizz”. Hjá Cambridge orðabókinni varð vart við umtalsverða aukningu á orðinu “hallucinate” (sjá ofsjónir). Og að lokum, samkvæmt Merriam-Webster er orð ársins “authentic” (ekta). Á meðan við bíðum eftir niðurstöðu íslenskufræðinganna skulum við rifja upp orð síðast árs: “innrás“. Svo mikið 2022. Eða hvað?

Út fyrir rammann: Kurzgesagt

Viltu læra um alla sögu plánetunnar okkar á einungis klukkustund? Nú er það hægt og upplifunin dálítið eins og sýrutripp. Spilaðu bara þetta myndband og á einum klukkutíma færðu að sjá, í teiknimyndaformi, hvernig Jörðin varð til og þróun hennar allt til okkar tíma. Hallaðu þér aftur, slakaðu á og sökktu þér í myndina. Og ef þig þyrstir í meira, skoðaðu alla Kurzgezagt rásina. Þú gætir lært margt – í hnotskurn.

Þá er það búið! Ég óska þér hinnar notalegustu og dásamlegustu hátíðar, með hverju því sem veitir þér gleði – hvort sem það er skata (ég er ekki að dæma þig), reykt skinka, rjúpa eða einhver bragðgóður vegan réttur – njóttu þessa alls í botn.

Bestu þakkir fyrir að hanga með okkur í Hnappnum á þessu ári. Mælum fyrir gefandi, stafrænt spennandi, ánægjulegu og vonandi algjörlega hættulausu 2024. Skál fyrir góðum tíma framundan!

Friður, brúður og teknó,

Juraj

Deildu færslunni:

Aðrar greinar

Fókus #11

Eins ferskt og nóvembervindurinn, hér eru helstu fréttir og innblásinn fróðleikur sem ég hef rekist á síðustu vikur. Allt frá nýjustu viðbótunum á samfélagsmiðlum til þess hvers vegna besta vefsíðan fjallar um egg, þetta og meira til er í fréttabréfi mánaðarins.

Lesa nánar

Fókus #13

Hér fáið þið fyrsta eintak Fókuss á þessu ári, sem er fréttabréf með áhugaverðum fréttum, skrítnum staðreyndum og hugmyndum um markaðssetningu. Dýfum okkur í þetta!

Lesa nánar