
Sumarið er heitt, líka þótt það sé það ekki. Það er nefnilega mikil orka uppfull af tækifærum í gangi, þrátt fyrir veðrið. Og eftir að hafa skimað í gegnum nýjustu fréttir af markaðsmálum virðist allt mögulegt þessa dagana. Svo, hendum okkur í það sem mér finnst standa upp úr.
Heimurinn
1.
Ef þú ert eldri en 35 ára er möguleiki á að þú munir eftir brúðuþættinum Celebrity Deathmatch á MTV stöðinni. Núorðið getum við horft á svipað efni í beinni, og við erum ekki að meina þetta PR stönt þeirra Zuckerberg og Musk þar sem þeir börðust í búri (þvílíkir tímar sem við lifum á!). Við erum vitaskuld að tala um nýja Meta smáforritið, Threads, sem er í raun útgáfa tvö af Twitter en án auglýsinga (eins og stendur) og með minna rugli (fer eftir því hver þú spyrð). Tölurnar vekja athygli – 100 milljón notendur náðu í forritið á fyrstu 5 dögum þess. Það er of snemmt að segja að það hafi slegið í gegn, þar sem fyrstu gögn um Android notendur benda til nokkurrar lækkunar í virkni, fækkun notenda og daglegra mínútna sem forritið er opið. Það verður ekki síst spennandi að fylgjast með hvernig þessu fyrirbæri reiðir af. Og vonandi getum við fengið að prófa það líka en Threads er í augnablikinu ekki aðgengilegt í flestum Evrópulöndum, vegna alvarlegra vankanta á persónuverndarskilmálum.
2.
Einn stærsti viðburðurinn í auglýsingaheiminum átti sér stað fyrir nokkrum vikum síðan. Cannes Lions 2023 tilkynntu hver báru sigur úr býtum í hverjum flokki fyrir sig, af þeim 27.000 sem sendu inn skráningu. Og sigurvegararnir eru… fjölmargir, eða u.þ.b. 3% af þeim sem tóku þátt.
3.
Aðeins meira frá Cannes. Andrew Robertson, forstjóri BBDO auglýsingastofunnar, hélt upplýsandi fyrirlestur um notkun og nýtni húmors í auglýsingum. Rannsóknir hans benda til að húmor sé eitt öflugasta verkfærið sem þú getur notað til að gera vörumerki, vöru eða þjónustu minnisstæð. Já, það er kominn tími til að ráða grínista sem textahönnuð!
4.
Meta stendur sig ekki frábærlega við að stöðva rangar upplýsingar og hatursáróður, en þegar kemur að myndum af berum konubrjóstum hefur það alltaf lagt hart að sér við að eyða þeim sem fyrst. Þetta er mögulega að breytast – það er, ef verið er að efla heilsuvitund.
Þetta byrjaði allt í kringum 2020, þegar Instagram eyddi út átta myndum frá brasilískum notanda sem var að kljást við brjóstakrabbamein. Málið var sent til úrskurðarnefndar fyrirtækisins, sem endurskoðar deilumál og er nokkurs konar hæstiréttur samfélagsmiðilsins. Nefndin úrskurðaði að miðillinn hefði brotið reglur um tjáningarfrelsi.
Niðurstaðan leiddi til þess að Meta bætti verkferla við eyðingu mynda, nú geta stjórnendur skoðað og metið allt að 2.500 pósta á mánuði, sem áður hefði verið sjálfkrafa eytt af miðlinum.
Sem stendur eru þó enn óljóst hver afstaða miðilsins er til geirvartanna á intersex, kynsegin og transfólki og beðið eftir nýjum skilyrðingum.
5.
Og hér eru fleiri fréttir af Meta, í þetta sinn um hið vanmetna WhatsApp smáforrit. Meta vill aðstoða fyrirtæki við að nýta sívaxandi vinsældir persónulegra markaðsskilaboða, með því að bæta nýjungum við forritið. Til að byrja með verður gert mögulegt að kaupa auglýsingar á Facebook og Instagram án þess að vera með Facebook notendaaðgang. Þessar nýju auglýsingar verða með WhatsApp hnapp til að senda væntanlega viðskiptavini inn á skilaboðarásina þína. Þannig verður hægt að senda bein skilaboð með áminningum, afmælisóskum eða ráðleggingum og ábendingum um tilboð og afslætti. Þú getur lesið nánar um þetta á bloggsíðu Meta.
Augnakonfekt: Retoolings
Manstu þegar við vorum börn og lékum okkur með vaxliti? Sum okkar gera það enn og önnur hafa meira að segja endurhannað þá. Það var þó ekki ég heldur bandaríski hönnuðurinn Keetra Dean. Á síðasta ári kynnti hún vaxlitabox með allskonar löguðum og fallegum litum, og blandaði jafnvel saman fleiri en einum lit til að leyfa ímyndunaraflinu og sköpunargáfunni að leika lausum hala. Vaxlitaboxin seldust upp og hefur framleiðslan verið sett í bið um tíma en ég mæli með að þið fylgist með Keetra, þar sem hún er nú þegar byrjuð að kokka eitthvað fleira upp í vinnustofunni sinni í Alaska. Á meðan getið þið fundið gömlu vaxlitina ykkar og teiknað eitthvað skemmtilegt!
Trend mánaðarins: Drappað flagg
Í daglegu tali er stundum minnst á “rautt flagg”, “grænt flagg” og jafnvel gult. En hefurðu heyrt um “drappað flagg”? Þetta byrjaði auðvitað á TikTok og ég varð að kynna mér þetta betur. Einhver tók að sér að útskýra þetta betur og ég mæli með að þið lesið þetta til að auka þekkingu ykkar á trendum og halda í við nútímann.
Tala mánaðarins: 200 af 1000
Þýska blaðið Bild, eitt þekktasta morgunblað heims, ætlar að setja hluta ritstjórnarvinnslunnar í ”hendur” gervigreindar í stað mannlegra handa. Stjórnendur Bild hafa fyrirætlanir um að draga úr rekstrarkostnaði upp á 100 milljónir evra og eru 200 af 1000 starfsmönnum í hættu á að missa starf sitt. Á hátindi sínum seldi Bild 4,5 milljónir eintaka daglega en í dag er upplagið rétt yfir 1 milljón. Í febrúar var haft eftir útgáfustjóranum, Mathias Döpfner, að fyrirtækið muni hætta að koma út á prenti og færast yfir á stafrænt form eingöngu einhverntíma á næstu árum
Út fyrir rammann: Gallaefnissagnfræðingur
Fílarðu gallaefni? Það eru ansi miklar líkur á því að þú eigir gallabuxur og sért jafnvel í þeim akkúrat núna (þó vonandi ekki í kuðli um ökklana). Það er margt svalt við gallaefni og eitt af því er starf sagnfræðings með sérhæfingu í gallaefni. Sú starfar fyrir Levi Strauss og heitir Tracey Panek og hér er áhugavert viðtal við hana þar sem hún leitast við að svara aðalspurningunni varðandi þetta málefni: HVERS VEGNA Í ÓSKÖPUNUM?
Þá er allt upptalið að sinni. Hvort sem þú ert á Tene, í tjaldi á Kópaskeri eða bara að horfa á Netflix og tjilla í brjálæðislega veðsettu íbúðinni þinni í 108, vona ég að þú sért að njóta sumarsins. Það er enn mánuður eftir af því svo drífðu þig út og gerðu eitthvað sem gerir þig glaðari!
Friður, brúður og teknó,
Juraj