Fókus #5

Hér er það sem greip mest athygli okkar í markaðssetningargeiranum síðastliðinn mánuð. Að þessu sinni skoðum við nýjungar fyrir auglýsendur hjá Meta, Eurvision og nýjustu Dylan Mulvaney vs Bud Light herferðina sem olli algjörri upplausn meðal bandarískra íhaldsmanna, og margt fleira.

Heimurinn

1.

Á nýliðinni I/O ráðstefnu tilkynnti Google um gríðarlega breytingu á leitarvélarniðurstöðum: Google ætlar að birta svör frá gervigreindarforriti efst í leitarniðurstöðurnar. Það þýðir að notendur munu brátt geta fundið mikilvægar upplýsingar án þess að þurfa að smella á sjálfar vefsíðurnar sem geyma þær upplýsingar.

Eigendur vefsíðna eru byrjaðir að kaldsvitna yfir þessu, af ótta um að heimsóknir inn á síðurnar þeirra frá Google leitarsíðum muni hrynja, og þar með auglýsingatekjur þeirra.

Google hefur reynt að róa þá með því að kalla þetta tilraun, á meðan fyrirtækið heldur áfram að kljást við fréttaveitur um allan heim sem krefjast þess að tæknirisinn borgi fyrir að nota efni frá þeim.

En bíðið við, þetta er ekki búið! Google er með enn stærri plön um gervigreind. Það hefur í skoðun að blanda gervigreind inn í allar þjónustur sínar, allt frá Gmail og Google Docs til Google Maps. Fyrirtækið ætlar í samstarf með Firefly þjónustu Adobe um hönnun mynda eftir textalýsingu. Google stefnir líka á að fá alla forritara á sína sveif með spjallmenninu Bard, sem er hannað til að aðstoða við forritun.

Til að svara áhyggjuröddum einbeitir fyrirtækið sér nú að því að hanna sérstök vatnsmerki til að nota á gervigreindarmyndir og -myndbönd, sem myndu gera það auðveldara að greina þau frá alvöru myndefni. Nokkurs konar stafrænan stimpil. Hjúkk, þar með er höfundarvernd tryggð. Eða hvað?

2.

Brátt munum við sjá nýtt Tvítforrit og það mun bera nafnið Barcelona. Án grins! Meta hefur tilkynnt um nýtt smáforrit í þróun, og kallar það “Instagram fyrir hugsanirnar þínar”. Þessi ekki-svo-nýja nýung felst í birtingu stuttra texta, og nýtir þar með vaxandi vinsældir þess að koma einkaskilaboðum til meiri fjölda í einu. Barcelona verður sjálfstætt og ómiðlægt forrit en samnýtir Instagram aðgang til að hægðarauka fyrir notendur og geta textarnir verið að hámarki 500 stafabil. Barcelona er að mörgu leyti svipað Channels viðbótinni sem Instagram kynnti nýlega en sker sig úr þar sem notendur geta fylgt hver öðrum eftir og séð nýjustu pósta strax. Sjáum hvernig þessari nýung vegnar í þessum tímum sjónrænna áhrifa.

3.

Það getur verið áskorun að auglýsa á Facebook og Instagram, sérstaklega á smærri markaðssvæðum eins og Íslandi. Hins vegar kynnti Meta gervigreindarlausnina Meta Lattice nýlega á blogginu sínu. Þetta nýstárlega líkan byggir undir auglýsingabirtingar án þess að til þurfi nákvæmar notendaupplýsingar og losar þar með um stirðleikann sem skapast hefur vegna persónuverndarreglna. Vélanám Meta Lattice nýtist til að spá fyrir um viðbrögð notanda við auglýsingum, með því að nota fjölda gagnapunkta, og tryggir þannig birtingu auglýsinga sem eiga erindi við notandann án þess að reiða sig á söfnun sértækra upplýsinga úr ákveðnum snjallforritum. Með víðtækum skilningi á nýjum hugtökum og tengingum getur Meta Lattice fljótlega fínstillt skilyrðin sem nýtast auglýsendum. Að auki víkkar líkanið stöðugt þekkingu sína á mögulegum áhugasviðum frá mörgum punktum, s.s. News Feed, Stories og Reels. Líkanið tekur einnig inn í útreikninginn lengd birtingartíma og áhrif hans á viðbrögðin og grípur þannig bæði skammtímaþarfir og langtímaáhuga. Þessi nýung gæti orðið bylting fyrir árangur auglýsinga með því að bæta stórlega marksækniáhrif sem og upplifun notenda.

4. 

Varúð, drama! Samfélagsmiðlar hafa sýnt fram á að skoðanir geta verið sterk vopn, svo sterk að þær geta rústað bæði fjárhag og lífi. Þetta kom í ljós þegar nýjasta herferð Bud Light bjórsins var skipulögð í Bandaríkjunum en þá lét markaðsteymið eigin metnað vega þyngra en hinn ristastóra, félagslega og menningarlega fjölbreytta markað, og afleiðangarnar voru hættulegar. Sérfræðingurinn Mark Ritson reifar hér sína skoðun á málinu í talsvert löngu riti. Ef þér finnst þetta jafnheillandi og okkur þá er hér önnur hlið á þessu umdeilda máli, frá sjónarhorni Samantha Riedel og Abby Monteil, sem skrifa um menningu transfólks.

Augnakonfekt: Boba Ice Cream

Við getum verið sammála um þá staðreynd að þegar kemur að því að markaðssetja ís skiptir litaspjaldið öllu máli. Bandaríska fyrirtækið Boba Ice Cream tók þetta alla leið! Sem betur fer byggðu þeir ekki strategíuna sína á ágiskunum heldur sniðu hana vandlega að gildum fyrirtækisins um deilihamingju og sögu sína, sem asískum bragðtegundum sem endurspegla rætur fyrirtækisins. Mmmmm! Okkur langar svakalega mikið í ís núna, hvenær er næsta flug til New York? Meðan þú bíður í röðinni við vegabréfaeftirlitið geturðu skoðað þessa stórkostlega líflegu vefsíðu fyrirtækisins.

Trend mánaðarins: Buxur!

OK, við þurfum öll buxur svo þetta er kannski ekki svo nýtt æði. Eða það heldur þú. En það eru tvenns konar buxur sem leitað er að á síðum veraldarvefsins meira en nokkru sinni fyrr og virðist engan endi vera að taka: cargo buxur og buxur með víðum skálmum. Þær eiga það sameiginlegt að vera víðar og þægilegar. Einhverjar teprur eru kannski ánægðar með að þá sé unga fólkið ekki að sýna of mikið hold en, bíðið með fagnaðarlætin því magabolir passa akkúrat við báðar þessar tegundir af buxum! Það hefur verið vitað síðan fyrir Kóvid, sem var fyrir milljón árum. Þessi tvö trend og íslenska veðrið eiga mögulega ekki mikla samleið, en seiglan í þessari þjóð gæti orðið ábatasöm útflutningsvara. Svo, öllu út að spóka sig í cargo buxum!

Tala mánaðarins: 1.500.000.000

Þessi tala hefur ekkert að gera með prósentuhækkun verðbólgunnar í Zimbabwe. Þetta er fjöldi þeirra sem hafa horft á efni tengt Eurovision á TikTok, frá ársbyrjun og fram til lokakeppninnar þann 13. maí. Þetta er sami fjöldi og horfði á slíkt efni á síðasta ári, nema hvað yfir allt árið 2022. Brjálæðisleg fjölgun, ekki satt? TikTok er opinber samstarfsaðili keppninnar og þótt þetta sé aðeins annað ár samstarfsins virðist þetta vera hið fullkomna samband. Það verður áhugavert að sjá hvort aukning vinsælda meðal yngri áhorfenda komi til með að verða rothögg dómnefndanna í lagakosningunni. Cha, cha-cha-cha, cha cha chaaaaaa!

Út fyrir rammann: Meiro

Ertu að ströggla við að búa til spurningar fyrir samkvæmisleikina í næsta kvöldverðarboði? Þarftu að búa til fræðandi en sniðugt efni í vinnunni? Það er til lausn. MeiroAI er gervigreindarforrit sem býr til spurningaleiki, próf og leiki. Sem þýðir að þú getur búið til frábært og spennandi stöff á nokkrum mínútum. Beta útgáfan af forritinu er ókeypis í bili svo drífðu þig og undirbúðu þig fyrir spurningakeppnir komandi ára!

Hey, maí er ekki liðinn en við vonum að þú hafir fengið nokkra góða snemmsumardaga. Farið vel með ykkur, góða skemmtun og fylgist með í næsta mánuði þegar við mætum með fleiri spennandi markaðssetningarfréttir.

Friður, brúður og teknó,

Juraj

Deildu færslunni:

Aðrar greinar

Fókus #3

Í nýjasta tölublaði Fókuss: Snapchat fær gervigreind til liðs við sig, TikTok kynnir tímatakmörkun fyrir unga notendur og drappað er liturinn sem koma skal.

Lesa nánar

Fókus #10

TikTok er að opna fyrir söluleiðir, bíllinn þinn safnar gögnum sem eru seld áfram og þú gætir fljótlega þurft að ákveða hvort þú viljir borga fyrir aðgang að uppáhalds- samfélagsmiðlinum þínum.

Lesa nánar